Eftirfarandi eru tólf megin áherslumál Lýðræðisflokksins fái flokkurinn umboð kjósenda í næstu kosningum til að ná þeim fram:
- Með breytingum á leikreglum íslensks peningamarkaðar verði almenningi og fyrirtækjum tryggð sambærileg vaxtakjör og tíðkast í nágrannalöndum okkar. Með þessum hætti tryggjum við áður óþekktan stöðugleika og fyrirsjáanleika fyrir landsmenn alla.
- Fjárlög verði hallalaus og skuldir ríkisins greiddar niður með markvissum hætti. Samtímis verði umsvif ríkisins dregin stórlega saman og skattar, tollar og opinber gjöld lækki í kjölfarið. Öll fjármálaumsýsla ríkisins verði endurskoðuð til ábyrgðar, sparnaðar og hagræðingar.
- Landsvirkjun og Landsnet verði áfram í eigu ríkisins. Hraðað verði uppbyggingu skynsamlegra virkjanakosta, þ.e. fallvatna og jarðvarma.
- Alþjóðlegar skuldbindingar ríkisins verði teknar til endurskoðunar, einkum EES-samningurinn og loftslagssamningar. Árétta verður tvíeðli íslensks réttar og sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar. Hafna ber orkupökkum ESB.
- Veittir verði skattaafslættir vegna styrkja til góðgerðarmála, t.d. styrkja til félaga sem rekin eru til almannaheilla, menningar- íþrótta- og æskulýðsmála.
- Tryggja verður sjálfbæra og arðbæra nýtingu allra náttúruauðlinda. Aðgangstakmarkanir eru því óhjákvæmilegar. Ríkið sem eigandi náttúruauðlinda innheimti gjöld sem tryggi eðlilegt endurgjald fyrir nýtinguna. Ríkið standi ekki í vegi fyrir olíuleit í efnahagslögsögu Íslands.
- Einstaklingsfrelsi er kjarninn í stefnu Lýðræðisflokksins. Við lagasetningu skal ávallt spyrja lykilspurningarinnar: Er einstaklingsfrelsi aukið eða minnkað með þessum lögum?
- Horfið verði frá áformum um borgarlínu og önnur verkefni sem hafa farið langt fram úr kostnaðaráætlunum. Einkaframtak verði nýtt til að greiða fyrir samgöngum og tryggja öryggi vegfarenda. Sundabraut fái forgang um framkvæmd. Sveitarfélögum verði gert skylt að tryggja nægilegt lóðaframboð og byggingareglugerð verði einfölduð.
- Opinber þjónusta, þ.m.t. heilbrigðisþjónusta og menntun barna, verði betur tryggð með skynsamlegri blöndu opinbers rekstrar og einkarekstrar. Menntun í grunnskólum landsins verði bætt með áherslu á lestur, skrift og reikning. Skólagjöld, sem endurspegla raunverulegan kostnað, verði innheimt á háskólastigi. Auka þarf aðgengi að verknámi.
- Skerðingar á lífeyri vegna tekna verða afnumdar. Ríkið á ekki að standa í vegi fyrir því að þeir vinni sem það geta.
- Tekið verði fastar á glæpamönnum með þyngri refsingum fyrir ofbeldisglæpi og betri fjármögnun og heimildum lögreglu.
- Full stjórn á landamærunum. Hæliskerfið verður lagt niður og eingöngu tekið á móti viðráðanlegum fjölda kvótaflóttamanna. Innheimt verði komugjald af ferðamönnum. Útlendingum sem hlotið hafa dóm vegna afbrota skal vísað úr landi.