Fréttatilkynning frá Lýðræðisflokknum 29. nóvember 2024.
Á síðustu vikum hefur Lýðræðisflokkurinn – XL, frambjóðendur jafnt sem aðstoðarfólk, háð heiðarlega og einlæga kosningabaráttu fyrir málefnum sem brenna á þjóðinni.
Þar má nefna húsnæðis-, vaxta-, heilbrigðis- og samgöngumál og svo mætti lengi telja.
Okkur finnst því miður að í gær, tveimur sólarhringum fyrir kjördag sé einn oddvita okkar, Eldur Smári Kristinsson, boðaður í skýrslutöku hjá Lögreglustjóra á Suðurnesjum.
Uppgefin ástæða var að Samtökin 78 hafi lagt fram kæru gagnvart Eldi Smára vegna ummæla hans árið 2022.
Þar veltir Eldur Smári fyrir sér hvaða hvatir liggi að baki hjá þeim körlum sem skilgreina sig sem konur, að taka inn „domperidone“ lyf í því skyni að framkalla einhverskonar vökvaframleiðslu í því skyni að gefa börnum brjóst.
Ungabörnum sem þeir hafa hvorki borið né alið enda geta karlmenn, eðli málsins samkvæmt, ekki gengið með eða fætt börn.
Samhliða þessari kvaðningu í skýrslutöku sem gengið var hart eftir, hafa samfélagsmiðlasíður Lýðræðisflokksins og stuðningsfólks orðið fyrir árásum:
Efni fjarlægt, innlegg tilkynnt sem ólögleg og svo mætti lengi telja.
Hafa þessar árásir gengið það langt að tölvubúnaður á skrifstofu Lýðræðisflokksins hefur verið gerður ónothæfur.
Það er ljóst að hér er alvarlega vegið að æru Elds Smára sem og framboði Lýðræðisflokksins í heild, fyrir það eitt að hafa háð heiðarlega, málefnalega og einlæga baráttu fyrir málefnum sem sannarlega brenna á þjóðinni.
Lýðræðisflokkurinn og meðframbjóðendur Elds Smára vilja af þessu tilefni lýsa yfir að við munum öll sem eitt standa sem klettur að baki Elds Smára í þessari baráttu hans við að nýta sér tjáningar-, skoðunar- og málfrelsi sitt.
Á morgun er kjördagur og á morgun vonum við að íslenska þjóðin nýti rétt sinn til að hafa áhrif á íslenskt samfélag.
Við skulum fagna þessum degi lýðræðis og kjósa tjáningar-,skoðunar-, og málfrelsi fyrir okkur öll.
Með vinsemd og virðingu,
Fh. Lýðræðisflokksins
Arnar Þór Jónsson