Lýðræðisflokkurinn – fyrir fólkið í landinu

Stefnuyfirlýsing

Lýðræðisflokkurinn er stofnaður til að standa þéttan vörð um hagsmuni almennings á Íslandi, heimila og fyrirtækja gagnvart valdakerfi sem farið er að þjóna sjálfu sér.
Óábyrg framganga atvinnustjórnmálamanna kallar á að fólkið í landinu láti sjálft til sín taka á vettvangi landsmála með því að standa vörð um frelsi, sjálfstæði, fullveldi og menningararfleifð þjóðarinnar með áherslu á beint lýðræði, valddreifingu, réttarríkið, mannréttindi, löggæslu og örugg landamæri með tryggum yfirráðum þjóðarinnar yfir auðlindum til lands og sjávar. 


Að öllu þessu ber að vinna með því að undirstrika að frumhlutverk ríkisins er að þjóna borgurunum, ekki öfugt.

Lýðræðisflokkurinn stendur vörð um frelsi einstaklingsins til orðs og athafna. Fólk fái að taka ábyrgð á sjálfu sér. Ríkinu ber að virða og verja sjálfsákvörðunarrétt borgaranna.


Dregið verði úr kostnaðarsömum eftirlitsiðnaði ríkisins. Við lagasetningu skal ávallt spyrja lykilspurningarinnar: Er einstaklingsfrelsi aukið eða minnkað með þessum lögum?


Með því að vinna gegn samþjöppun valds og gegn hvers kyns ofríki. Beint lýðræði fái aukið vægi. Atkvæðavægi í Alþingiskosningum verði jafnað. Einn maður – eitt atkvæði. Persónukjör verði valkostur í alþingiskosningum.


Notkun reiðufjár er hluti af borgaralegu frelsi. Því ber að standa vörð um notkun reiðufjár í daglegum viðskiptum. Verði reiðufé tekið úr umferð mun það gefa ríkisvaldinu möguleika á að fylgjast með og stýra öllu peningaflæði.


Frelsi í fjölmiðlarekstri. Almenningur á ekki að vera þvingaður til að styrkja fjölmiðla. RÚV ohf. verði selt eða starfsemi þess gjörbreytt. Þær aðstæður sem réttlættu stofnun Ríkisútvarps á sínum tíma eiga ekki lengur við. Eigi nefskattur að standa áfram ber að veita skattgreiðendum frjálst val um hvaða fjölmiðill fær útvarpsgjaldið sem hver og einn greiðir.

Lýðræðisflokkurinn leggur áherslu á að utanríkisstefna Íslands miði að því að tryggja hagsmuni Íslands, verja fullveldi Íslands og farsæld Íslendinga, bæta tengsl við aðrar þjóðir, efla samstarf við bandamenn okkar og vera málsvari samvinnu, sátta og friðar á alþjóðavettvangi. Á þessum forsendum tekur Ísland þátt í starfi Sameinuðu þjóðanna, norrænu samstarfi og EES með umsömdu neitunarvaldi landsins. Ísland tekur þátt í NATÓ sem varnarbandalagi, en ekki árásarbandalagi.

Vinna ber með öðrum þjóðum í anda frelsis, jafnræðis og lýðræðis. Í því samhengi er tímabært að taka EES-samninginn til heildarendurskoðunar. Ísland segi sig frá orkupökkum ESB og við höfnum innleiðingu á Bókun 35 í íslensk lög sem gefur lögum ESB forgang fram yfir íslensk lög. Löggjafarvaldið á að vera hjá Alþingi Íslendinga.

Brýn­ustu viðfangs­efni Íslend­inga nú eru að vernda tungu­málið, verja tján­ing­ar­frelsið, verj­ast of­ríki og vald­boði, halda á lofti kyndli frjáls­lynd­is og umb­urðarlynd­is í anda kristinnar siðfræði. Við þurfum að standa þéttan vörð um þá íslenska þjóðmenningu, hefðir og siði, sem tilvera okkar hefur byggst á og dafnað í yfir þúsund ár.

Lýðræðisflokkurinn vill verja landamæri Íslands.

  • Full stjórn verði tekin á landamærum Íslands. Enginn komi til Íslands nema með heimild íslenskra stjórnvalda eða með vegabréfsáritun.
  • Hæliskerfi (alþjóðleg vernd) verði lagt niður og Ísland taki eingöngu á móti kvótaflóttamönnum eða á grundvelli fjöldaflótta. Ekki verði hægt að sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi. Fjármunum er almennt betur varið til að hjálpa fólki á heimaslóðum þeirra.
  • Viðunandi færni í íslensku verði, að meginstefnu, skilyrði fyrir endurnýjun allra dvalarleyfa.
  • Hallalaus fjárlög eiga að vera meginreglan með þröngum undantekningum.
  • Lækka ætti skatta og gjöld eftir fremsta megni eftir að hagrætt hefur verið í ríkisrekstri. Því meira sem skattgreiðendur halda eftir af sínu sjálfsaflafé, því betra.
  • Leggja ber niður alla framleiðslustyrki nema í landbúnaði. Afnema ber þá tolla sem ekki eru verndartollar.
  • Einkavæða ber sem flest ríkisfyrirtæki nema Landsvirkjun og Landsnet.
  • Hinir ríkisstyrktu kerfisflokkar hafa sýnt að þeim er ekki treystandi til að halda aftur af verðbólgu. Koma verður böndum á verðbólgu umsvifalaust, m.a. með hallalausum ríkisrekstri og niðurskurði útgjalda ríkisins um 20%.
  • Lýðræðisflokkurinn mun beita sér fyrir lögbundnu 4% vaxtaþaki á stýrivexti ásamt því að taka húsnæðislið út úr vísitölu neysluverðs.
  • Veittir verði skattaafslættir vegna styrkja til góðgerðarmála, t.d. styrkja til félaga sem rekin eru til almannaheilla.

Lýðræðisflokkurinn stendur vörð um atvinnufrelsi manna og vill auka það á öllum sviðum. Bæta þarf rekstraraðstöðu og samkeppnisstöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja einfaldara regluverki og með því að draga úr eða fella niður álögur.

Lýðræðisflokkurinn vill efla innlenda atvinnustarfsemi m.a. með því


…að stuðla að aukinni framleiðni hérlendis, efla hagvöxt og tryggja þar með hagsæld og framfarir á Íslandi. Á vettvangi ríkisfjármála leggur Lýðræðisflokkurinn áherslu á hófsemi í útgjöldum og sköttum. Útþensla ríkisins verði stöðvuð, dregið verði úr ríkisumsvifum og kostir einkaframtaksins nýttir. Með skattalækkunum verði fólk hvatt til aukinnar atvinnuþátttöku og nýsköpunar.

…með það að markmiði að Ísland sé sjálfbært í matvælaframleiðslu. Standa ber vörð um íslenskan landbúnað, þ.m.t. framleiðslu á kjöti og grænmeti. Leysa ber íslenska bændur undan forsjárhyggju og miðstýringu. Stuðla ber að nýliðun í landbúnaði.

…með því að bændum verði gert kleift að nýta sóknarfæri á hverjum stað, stuðla að nýbreytni í heilnæmri búvöru á öllum sviðum, m.a. með því að selja vöru sína beint frá býli. Neytendum verði tryggðar öruggar upplýsingar um uppruna og innihald allrar búvöru.

…með því að leiðrétta valdaójafnvægi milli stórútgerðar og almannahagsmuna. Búa sjávarútvegi skilyrði til að sækja fram, á jafnræðisgrunni. Allur fiskur sem veiddur er á Íslandsmiðum verði seldur á fiskmarkaði.


…með því að skapa ferðaþjónustu skilyrði um land allt til áframhaldandi atvinnusköpunar og gjaldeyrisöflunar. Erlendir ferðamenn greiði komugjald sem nýtt verði eingöngu til innviðauppbyggingar og til að vernda viðkvæma staði í ríkiseigu fyrir átroðningi. Að auki verði kröfur um ráðstöfunarfé ferðamanna hækkaðar.

…með því að náttúruperlur verði verndaðar og vatns- og jarðvarmaorka verði nýtt í jafnvægi við náttúruna.

Heilbrigðisþjónusta verði betur tryggð með skynsamlegri blöndu opinbers rekstrar og einkarekstrar. Framfarir, fagmennska, samkeppni, hagsýni og skynsamlegt aðhald eru hornsteinar góðrar heilbrigðisþjónustu. Við teljum að nýta megi betur það fjármagn sem nú fer í heilbrigðiskerfið með markvissum aðgerðum til að bæta aðgengi og þjónustu heilbrigðiskerfisins um allt land.

Aðeins íslenskir ríkisborgarar njóti sjúkratrygginga og eigi kost á almannatryggingum og atvinnuleysistryggingum.  Styrkja þarf sjúkraflugið og strax fara að huga að byggingu nýs þjóðarsjúkrahúss. Endurreisa þarf fjórðungssjúkrahúsin svo þau geti þjónað betur landsbyggðinni.

Landsvirkjun og Landsnet verði áfram í eigu þjóðarinnar. Virkjunarkostir jarðvarma og fallvatna verði nýttir til fulls í jafnvægi við náttúruna áður en aðrir kostir verði skoðaðir. Íslenskum heimilum og almennri atvinnustarfsemi sé tryggður forgangur að raforku umfram stóriðju. Kolefnisskattar verði felldir niður í ljósi þess að Ísland hefur skilað sínu framlagi nú þegar.

Lýðræðisflokkurinn stendur fyrir frelsi í menntamálum og stendur vörð um íslenska tungu og menningu.

Auka ber valfrelsi á öllum sviðum menntunar. Góðir kennarar geti fengið greidd laun til samræmis við frammistöðu. Opnað verði fyrir fjölbreyttari rekstrarform á öllum skólastigum með upptöku ávísanakerfis. Skólanámskrá verði einfölduð og einstaka skólum og  kennurum verði gefið meira frjálsræði til að setja sínar áherslur. Efla þarf iðnmenntun á Íslandi og auðvelda hæfileikafólki og verkmönnum sem ekki hafa hlotið formlega skólagöngu að hljóta viðurkenningu í sinni starfsgrein. Skólastarf efli gagnrýna hugsun og miði ekki að innrætingu.  

Lýðræðisflokkurinn vill rétta hlut aldraðs fólks og öryrkja

  • Með því að hækka bætur almannatrygginga til samræmis við hækkun launavísitölu eins og lög kveða á um.
  • Með því að tryggja að tekjur skerði ekki greiðslur úr almannatryggingum.
    Öryrkjum verði auðveldað að komast aftur inn á atvinnumarkað.
  • Haldi fólk áfram að vinna eftir 67 ára aldur verði það undanþegið greiðslu félagsgjalda og iðgjalda í lífeyrissjóð.
  • Með því að tryggja að fólk geti notið lífeyrisgreiðslna og eðlilegra tekna af fjármunum og fella brott óhóflegar skerðingar almannatrygginga.
  • Með því að styðja fólk til sjálfsbjargar og sjálfsvirðingar.
  • Með því að öllum sem ekki geta séð um sig sjálfir verði tryggð viðeigandi aðstoð, eftir atvikum í samstarfi við einkaaðila

Lýðræðisflokkurinn vill stuðla að bættum samgöngum í lofti, á láði og á legi.


Með uppbyggingu stofnbrauta, mislægra gatnamóta og ljósastýringum. Sundabraut fái forgang í ljósi öryggis og dreifingar á umferð. Hafnað er áformum um tugmilljarða fjársóun vegna svonefndrar borgarlínu. Samgöngusáttmálinn verið tekinn til endurskoðunar. Nýta ber kosti einkaframkvæmdar við gerð umferðarmannvirkja, eins og Hvalfjarðargöngin eru gott dæmi um. Innheimta má veggjöld fyrir notkun umferðarmannvirkja með rafrænum hætti. Skattlagning vegna vegaframkvæmda skili sér á réttan stað.

Lýðræðisflokkurinn vill stuðla að umbótum og framförum í íslensku þjóðfélagi…

…með því að stuðla að breytingum á leikreglum á lánamarkaði sem geti tryggt íslenskum fyrirtækjum og fjölskyldum sambærileg vaxtakjör og tíðkast í nágrannalöndum. Agi í ríkisfjármálum mun stuðla að stöðugleika og eðlilegu vaxtastigi og draga úr verðbólgu. Þetta mun aflétta óbærilegu ástandi og vaxtaumhverfi.

Fjölskyldan er hornsteinn samfélagsins.

Standa ber vörð um íslenska tungu og menningu, kristin gildi og þær frjálslyndu lýðræðishefðir sem fullveldi og sjálfstæði Íslands grundvallast á.

Einungis íslenskir ríkisborgarar eða lögaðilar hafi heimild til að eiga jarðir og kvóta á Íslandi. Þeir skulu eiga heimilisfesti hér á landi og greiða skatta og skyldur á Íslandi.

Alþingi setji í krafti sjálfsákvörðunarréttar síns lög um að nýtanlegar náttúruauðlindir innan íslenskrar lögsögu, sem ekki eru í einkaeigu, séu eign íslenska ríkisins.

Ísland ætti að segja sig frá samstarfi við Evrópusambandið um loftslagsmál.


Í nafni þjóðaröryggis ber að auka fjárframlög til réttarvörslukerfisins og efla löggæslu, landhelgisgæslu og tollgæslu enn frekar. 

Herða ber refsingar við ofbeldisglæpum. Samfélagið á rétt á að verja sig fyrir ofbeldismönnum og skipulagðri glæpastarfsemi. Efla þarf fangelsi landsins og heilbrigðisþjónustu við fanga.

Stjórnmálaflokkar standi á eigin fótum án stuðnings frá opinberum sjóðum. 

Stjórnsýslukærur verði aflagðar. Nægjanlegt er að umboðsmaður Alþingis og dómstólar hafi annars vegar eftirlit og hins vegar endurskoðunarvald gagnvart framkvæmdarvaldinu. Efla verður embætti umboðsmanns og héraðsdómstóla til samræmis. Ríkið beiti meðalhófi gegn borgurum.

 

Megináherslur Lýðræðisflokksins í komandi kosningum er að auka lýðræði og að lækka vexti. Við viljum efla beint lýðræði, virkja rödd fólksins í landinu og leyfa því að tjá sig í kosningum um mál sem telja má meiri háttar stefnumótandi mál, eins og vopnakaup fyrir íslenskt skattfé.

Lýðræðisflokkurinn vill verja frelsi einstaklingsins fyrir ásókn ytri afla

Lýðræðisflokkurinn vill verja íslenska náttúru, landið okkar, við viljum verja íslenskar auðlindir. Við viljum lækka skatta og draga úr þessari útþenslu ríkisins og síðast en ekki síst viljum við verja frelsi einstaklinganna fyrir ásókn ríkisvalds, ásókn stórfyrirtækja og ásókn sem sannarlega dynur á okkur utan frá þar sem stórveldi og ríkjasambönd og alls konar erlendar stofnanir vilja hafa áhrif á það hvernig Íslendingar lifa sínu lífi. Hver og einn maður á að fá að ráða því fyrst og fremst.

Það er fyrir löngu kominn tími á róttækar breytingar.

 

Kjósum X-L !

Ef þú vilt leggja okkur lið þá endilega deila þessari síðu á samfélagsmiðlum. 


Mundu að skrá þig í flokkinn og öll framlög eru vel þegin.

Comments are closed.

Loka leitarglugga